Erlent

Kosið í Indiana og Norður-Karólínu

Barack Obama og Hillary Clinton takast nú á í ríkjunum Norður Karólínu og Indíana í forkosningum Demókrata í Bandaríkunum.

Stjórnmálaskýrendur segja að um sé að ræða síðustu stóru kosningarnar og að gríðarlegu máli skipti fyrir þau bæði að bera sigur úr býtum. Kosningarnar eru í dag og gefa spár til kynna að um jafna keppni verði að ræða. Samkvæmt fréttastofu CNN leiðir Clinton í könnunum með 48 prósent atkvæða á móti þeim 44 prósentum sem Obama mælist með.

Átta prósent eru enn óákveðin. Barack Obama sagði í gærkvöldi að kosningin í Indíana gæti haft úrslitaáhrif og mögulega yrði unnt að skera úr um hvort þeirra verði forsetaframbjóðandi demókrata í kosningunum í Nóvember. Í Norður Karólínu hefur Hillary hins vegar dregið á Obama á síðustu dögum en þar hafði hann náð nokkru forskoti.

Hvorugur frambjóðandinn hefur náð að tryggja sér nægilega marga kjörmenn til að vera öruggur um útnefningu flokks síns og hallast margir að því að svokallaðir ofurkjörmenn þurfi að skera úr um hvor fari með sigur af hólmi. Ofurkjörmennirnir hafa meira vægi á flokksþinginu sem á endanum velur frambjóðandann og eru þeir ekki kosnir eins og aðrir kjörmenn heldur er um áhrifamenn innan flokksins að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×