Innlent

Geir oftast í fréttum - Björn sjaldnast

Ráðherrar voru virkari sem viðmælendur í fréttum fyrir síðustu áramót samanborið við síðustu sex mánuði. Þetta sýna niðurstöður Fjölmiðlavaktarinnar. Þannig mælast fimm ráðherrar nú með minni hlutdeild í fréttum um þá eða þeirra ráðuneyti, samanborið við tímabilið júní - desember 2007.

Geir H. Haarde mælist með mestu hlutdeildina í sínum fréttum en hann var viðmælandi í 48% þeirra frétta sem vísuðu í hann eða hans ráðuneyti. Af einstökum málefnum ræddi Geir H. Haarde oftast um efnahagsmál en alls kom hann fram í 79 fréttum um það málefni. Þá má nefna að Geir H. Haarde mælist mun virkari nú í viðtölum en áður, þ.e. hans hlutdeild sem viðmælandi hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin fjögur ár.

Með næstmestu virknina mældist Björgvin G. Sigurðsson Viðskiptaráðherra, en Björgvin var í efsta sæti um síðustu áramót. Viðskiptaráðherra mælist nú sem viðmælandi í 43% þeirra frétta sem vísuðu í hann eða hans ráðuneyti. Björgvin kemur mun oftar fram í viðtölum en forveri hans, en virkni Jóns Sigurðssonar fyrrverandi Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mældist oftast um 30%. Eins og við er að búast hefur Björgvin oftast rætt um efnahagsmál enda t.d. umfjöllun um krónuna aldrei verið jafn mikil og síðustu mánuði.

Þeir ráðherrar sem sýna minnstu sveiflu í virkni á mældu tímabili eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra . Umfjöllun um þessa ráðherra hefur verið svipuð í magni og áður ef undan er skilin umfjöllun um fjármálaráðherra sem hefur aukist nokkuð mikið síðustu mánuði. Af þessum ráðherrum hefur Einar K. Guðfinnsson mælst í efstu sætunum frá upphafi hans ráðherraferils og Þórunn Sveinbjarnardóttir er að mælast mun sýnilegri í fréttum sem umhverfisráðherra samanborið við forvera hennar.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sýnir mjög svipaða hlutdeild í viðtölum og forveri hennar Magnús Stefánsson gerði. Björn Bjarnason hefur síðustu fjögur árin mælst frekar svipað og lendir oftast í síðustu sætum sem viðmælandi í fréttum. Árni M. Mathiesen mælist með sömu virkni og fyrir áramót en hlutdeild hans sem viðmælandi í þeim fréttum sem að honum snúa hefur þó minnkað síðustu árin. Árni mældist því virkari viðmælandi sem sjávarútvegsráðherra en fjármálaráðherra en þess má geta að það gerði Geir H. Haarde einnig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×