Innlent

Íslendings leitað

Bandaríska og kanadíska strandgæslan hafa í sameiningu staðið fyrir umfangsmikilli leit að seglskútu í eigu Íslendings á hafsvæðinu milli Bermúda og Nýfundnalands undanfarna daga. Seglskútan sem er 35 feta, einmastra af Bavaria gerð, og um borð er Íslendingur sem hugðist sigla skútunni til Íslands. Hann lagði af stað frá Bermúda þann 31.maí eða 1.júní og ekki hefur náðst samband við hann síðan 3.júní.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir: „Þann 11.júní hafði Landhelgisgæsla Íslands samband við bandarísku og kanadísku strandgæsluna, sem hafa umsjón með leitarsvæðinu og fór fram á að eftirgrennslan yrði hafin. Þegar skútan hafði ekki skilað sér til St. John þann 13.júní var formleg leit hafin. Íslendingurinn er einn um borð."

Þrátt fyrir umfangsmikla leit hafa engin ummerki um skútuna komið fram. Skipulagðri leit hefur verið hætt í bili en eftirgrennslan heldur áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×