Innlent

Fíkniefnabrot nærri fjórðungi færri í maí í ár en í fyrra

Fíkinefnabrot í nýliðnum maí reynust nærri fjórðungi færri en í sama mánuði í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölfræði Ríkislögreglustjóra. Alls reyndust brotin 124 í maí síðastliðnum en voru 162 í sama mánuði í fyrra.

Tölurnar sýna einnig að að nærri 1.100 hegningarlagabrot voru framin í maí, langflest þeirra á höfuðborgarsvæðinu, og eru það fleiri brot en í maí í fyrra en færri en í maí 2006. Enn fremur voru rúmlega sex þúsund umferðarlagabrot í síðasta mánuði sem jangildir um 20 brotum á dag. Þrjú af hverjum fjórum brotanna voru hraðakstursbrot.

Tölur Ríkislögreglustjóra yfir afbrot fyrstu fimm mánuði ársins sýna enn fremur að flest innbrot og fíkniefnabrot voru framin í janúar en flestar líkamsárásir voru í mars.

Heldur fleiri eignaspjöll voru framin í maí ár en í sama mánuði í fyrra, eða 327 á móti 255. Það sama á við þjófnaðarbrot sem voru 302 í ár á móti 272 í maí í fyrra. Þá voru skráð 188 ölvunarakstursbrot sem þýðir að sex voru gripnir á dag í maí ölvaðir undir stýri.

Í lok maí voru teknar í notkun tvær stafrænar hraðamyndavélar á Suðurnesjum og eru þær staðsettar á Sandgerðisvegi og Garðskagavegi. Mynduðu þær alls 101 hraðakstursbrot á aðeins nokkrum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×