Innlent

Jafnréttissetur stofnað og bleikir steinar afhentir á kvennadegi

Kvenrréttindadagurinn er haldinn hátíðlegur um land allt í dag. Femínistafélag Íslands afhenti bleiku steinana við hátíðlega athöfn í morgun en í fyrsta skipti var móttöku þeirra hafnað.

Kvenréttindadagurinn verður haldinn hátíðlegur um allt land í dag en þess er minnst að 94 ár eru síðan konur fengu kosningarétt hér á landi. Fjölmargir viðburðir verða haldnir í tengslum við daginn. Dagskráin hófst í morgun þegar utanríkisráðuneytið og Háskóli íslands undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf um stofnun Jafnréttisseturs og Jafnréttisskóla sem ráðgert er að koma á stofn í nóvember.

Bleiku steinarnir voru afhentir á Austurvelli.MYND/Stöð 2

Meðlimir í Femínistafélagi Íslands afhentu bleiku steinanna við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli í morgun. Með þeim vill félagið minna á mikilvægi þess að hafa jafnréttissjónarmið í huga við ákvarðanatöku og hvetja handhafa steinanna til að kynna sér femínisma.

Dómsmálaráðherra og yfirmaður kynferðisbrotadeildar ríkislögreglustjóra veittu steinunum viðtöku að þessu sinni en athygli vakti að forseti Hæstaréttar og og formaður dómarafélagsins afþökkuðu boð félagsins þar sem þeir vildu gæta hlutleysis. Þetta er í fyrsta sinn sem bleiku steinarnir eru afþakkaðir.

Af fleiri viðburðum má nefna Bríetargönguna undir leiðsögn Auðar Styrkársdóttur, móttöku Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands og Bandalags kvenna í Reykjavík í samkomusal Hallveigarstaða og kvennamessu við þvottalaugarnar í Laugardal í kvöld þar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra predikar.

Og á Akureyri verður haldið Norrænt þing kvenfélaga. Þingið verður sett klukkan eitt í dag og stendur það fram á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×