Innlent

Miðborgarþjónar verða í bænum um helgar

Miðborgarþjónar verða lögreglu innan handar.
Miðborgarþjónar verða lögreglu innan handar. MYND/Eyþór Árnason

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu borgarstjóra um sérstaka miðborgarþjóna í bænum um helgar. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja vikna.

Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að borgaryfirvöld hafi að undanförnu fundað með lögreglu, veitingahúsaeigendum, fulltrúum íbúasamtaka, hverfisráðs miðborgar og verslunareigendum og þar hafi komið fram ósk um að taka á vanda miðborgarinnar um helgar.

Verða ráðnir sérstakir miðborgarverðir til þess að létta undir með lögreglu á þessum álagstímum um helgar. Þeir verða sex á vakt hverju sinni og verða að störfum frá klukkan tvö á nóttunni til átta á morgnana aðfaranætur laugardaga og sunnudaga. Munu þeir aðstoða fólk sem lendir í erfiðleikum, til dæmis vegna ölvunar og hafa eftirlit með og reyna að tempra hávaða.

Miðborgarþjónarnir verða til staðar við biðskýli leigubifreiða og þá munu þeir aðstoða hreinsunarbíla við að komast leiðar sinnar en hreinsun mun hefjast fyrr á morgnana um helgar í sumar. „Þeir hafa talstöð og verða í nánum tengslum við lögreglu og sjúkraflutningamenn. Leitað hefur verið til fyrirtækja á sviði öryggisgæslu vegna verkefnisins og þess verður vandlega gætt að verkefnin skarist ekki við lögbundin verkefni lögreglu," segir enn fremur í tilkynningu borgarinnar.

Þessir þjónar munu skila skýrslu til borgaryfirvalda sem tekin verður fyrir á reglubundnum fundum borgarstjóra á mánudagsmorgnum með lögreglu, veitingahúsaeigendum, fulltrúa íbúa og embættismönnum.

Bent er á að um tilraunaverkefni sé að ræða sem á sér fyrirmynd í borginni Manchester á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×