Innlent

Fangelsi er ekkert hótel

SB skrifar
Erlendur Baldursson, deildarstjóri hjá Fangelsismálastofnun. Segir fangelsi ekki hótel.
Erlendur Baldursson, deildarstjóri hjá Fangelsismálastofnun. Segir fangelsi ekki hótel.

Fréttin um Idol-stjörnuna Kalla Bjarna sem spilar golf og skrifar barnabók á Kvíabryggju hefur vakið sterk viðbrögð almennings. Erlendur Baldursson hjá fangelsismálastofnun segir Kvíabryggju ekkert hótel þrátt fyrir golfvöll og ný rúm.

"Þeir sem kalla fangelsi hótel vita ekki hvað þeir eru að tala um. Maður heyrir þetta stundum hjá fjölmiðlum en aldrei hjá ættingjum sem eiga einhvern nákominn í fangelsi," segir Erlendur.

Kalli Bjarni afplánar tveggja ára fangelsisdóm sem hann fékk eftir að hafa flutt inn tæp tvö kíló af kókaíni. Í Séð og Heyrt kemur fram að hann afpláni á Kvíabryggju; lífið leiki við hann og hann noti frístundir sínar til að spila golf og skrifa barnabók.

Forsíða Séð og Heyrt. Kalli Bjarni í golfi.

Þá hefur vakið athygli hverjir fá að dvelja á Kvíabryggju og hverjir ekki. Til dæmis afplánaði handrukkarinn Annþór Kristján Karlsson eitt sinn hluta af dómi á Kvíabryggju.

"Reglan er sú að menn sem vistast í opnum fangelsum verða að vera hæfir til þess og miðað er við að þeir dvelji ekki lengur en tvö ár á staðnum," segir Erlendur.

Í Séð og Heyrt í dag er haldið áfram að fjalla um Kvíabryggju. Taldir eru upp frægir einstaklingar sem hafa afplánað á Kvíabryggju og komið út betri menn. Þar á meðal er Pétur Þór Gunnarsson, sem opnaði nýverið aftur Gallerí Borg, Ármann Reynisson sem í dag er frægur vinjettuhöfundur, Knútur Brún lögfræðingur sem varð formaður safnráðs Listasafns Íslands og ekki má gleyma Árna Johnsen sem gerði dvölina á Kvíabryggju að skapandi sumarstarfi.

"Kvíabryggja rís undir nafni sem betrunarstofnun þar hafa fallin og fölnuð blóm sprungið út á ný. Allir eiga rétt á öðru tækifæri," segir Eiríkur Jónsson, ritstjóri Séð og Heyrt, í leiðara blaðsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×