Innlent

Spyrja hvað sé til sölu á eftir Hvammsvík

Fulltrúar minnihlutans í borgarráði lögðu í morgun fram spurningar vegna fyrirhugaðrar sölu Orkuveitur Reykjavíkur á jörðinni Hvammsvík í Hvalfirði. Undan er skilinn jarðhiti og jarðhitaréttur.

Eftir umræðu um málið á fundi borgrráðs lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna og Framsóknarflokksins fram fyrirspurn þar sem bent er á að Orkuveita Reykjavíkur hafi í tíð R-listans keypt margar jarðir vegna jarðhitanýtingar. Sú stefna hafi verið mótuð að landið nýttist til útivistar fyrir almenning samhliða orkuvinnslu fyrirtækisins. Nefnir minnihlutinn Hvammsvík, Nesjavell, Urriðavatn og Úlfljótsvatn sem dæmi og segir reynsluna af samnýtingu orkuvinnslu og útivist fyrir almenning hafa verið góða.

Því spyr minnihlutinn hver stefna meirihlutans sé um eignarhald Orkuveitunnar á því landi sem keypt hafi verið til orkuvinnslu, hvað verði til sölu á eftir Hvammsvík, hvort hugað hafi verið að grenndarrétti hugsanlegs kaupanda Hvammsvíkur vegna óþæginda af orkuvinnslu á jörðinni og hvort fyrirhuguð sala sé að frumkvæði Orkuveitunnar eða hvort einhver tiltekinn aðili hafi sóst eftir því að kaupa jörðina.

„Í ljósi þess að hér er um að ræða sölu á eign sem snertir allan almenning í Reykjavík og víðar á landinu er þess óskað að tilboð í jörðina verði kynnt borgarráði áður en þegar hafið söluferli nær lengra," segir í fyrirspurn minnihlutans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×