Innlent

ASÍ: Ástæða til að fagna aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Grétar Þorsteinsson er forseti ASÍ.
Grétar Þorsteinsson er forseti ASÍ. MYND/GVA

Alþýðusamband Íslands telur ástæðu til að fagna tillögu ríkisstjórnarinnar sem miða að því að blása lífi í húsnæðismarkaðinn. Eins og fram kom fyrr í dag hleypur ríkið undir bagga með bönkunum og lánar þeim fé til að lána til íbúðarkaupa og þá verður brunabótaviðmið lánveitinga Íbúðalánasjóðs afnumið og miðað við 80 prósent af kaupverði eignar. Enn fremur hækka hámarkslán úr 18 í 20 milljónir króna.

ASÍ segir í tilkynningu að aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin hafi fundað með ríkisstjórninni í dag þar sem forsætisráðherra hafi kynnt aðgerðirnar. „Forsetar Alþýðusambands Íslands lýstu áhyggjum sínum af horfum í atvinnumálum á fundinum og kom fram að stjórnvöld deila þeim áhyggjum með ASÍ og telja brýnt að bregðast við í tíma," segir í tilkynningu ASÍ.

Þar segir einnig að ástæða sé til að fagna tillögum ríkisstjórnarinnar sem miði að því að blása lífi í húsnæðismarkaðinn með því m.a. að auðvelda fólki aðgengi að lánsfé. „Í tillögum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í dag er verið að bregðast við ýmsum af þeim atriðum sem Alþýðusambandið hefur lagt áherslu á í sínum málflutningi að undanförnu. Forsetar Alþýðusambandsins ítrekuðu á fundinum að þessar aðgerðir megi ekki skerða getu Íbúðarlánasjóðs til að sinna sínu hlutverki," segir einnig í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×