Innlent

Sýknaður af ákæru um nauðgun

Héraðsdómur Austurlands sýknaði í gær karlmann af ákæru um að hafa fyrr á þessu ári nauðgað fjórtán ára stúlku í tvígang og fyrir tilraun til nauðgunar.

Samkvæmt ákæru voru brotin þrjú og áttu að hafa átt sér stað 9. og 10. febrúar, annars vegar á heimili stúlkunnar og hins vegar á heimili þar sem hún var að gæta barna.

Maðurinn neitaði sök í málinu en hann var vinur fjölskyldu stúlkunnar. Dómurinn benti á að maðurinn hefði frá upphafi neitað öllum sakargiftum en framburður hans hefði þó ekki að öllu leyti verið stöðugur. Meðal annars hefði hann ekki sagt satt um að hann hefði komið á heimilið þar sem stúlkan var að gæta barna og tvö brotanna áttu að hafa átt sér stað. Þá þótti hann hafa verið margsaga um símasamskipti við stúlkuna sem reyndust allnokkur.

Dómurinn komst hins vegar að því að sýkna bæri mannin af ákærunni, meðal annars með vísan til að stúlkan og maðurinn hefðu átt í miklum símasamskiptum eftir að meint nauðgun hefði átt sér stað. Þá hefði engin læknisrannsókn farið fram á stúlkunni og ekki lægi fyrir sálfræðilegt mat um hugsanlegar afleiðingar af ætlaðri nauðgun. Þá þótti framburður foreldra stúlkunnar um afleiðingar verknaðanna og breytingar á hegðun hennar ekki benda til þess að stúlkan hefði orðið fyrir alvarlegu andlegu áfalli. Var maðurinn því sýknaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×