Innlent

Herra Ólafur Skúlason biskup jarðsunginn

Um hundrað prestar voru viðstaddir útför herra Ólafs Skúlasonar.MYND/Stöð 2

Herra Ólafur Skúlason biskup var jarðsunginn í Bústaðakirkju í dag að viðstöddu fjölmenni. Um hundrað prestar voru við athöfnina en það sonur Ólafs, Skúli, sem jarðsöng föður sinn.

Átta prestar báru kistu Ólafs, þau séra Örn Bárður Jónsson, séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir, séra Björn Jónsson, séra Guðmundur Þorsteinsson, séra Vigfús Þór Árnason, séra Þorbjörn Hlynur Árnason, séra Þórir Stephensen og séra Hjálmar Jónsson.

Herra Ólafur Skúlason var fæddur 29. desember 1929 í Birtingaholti í Hrunamannahreppi, sonur þeirra Sigríðar Ágústsdóttur húsmóður og Skúla Oddleifssonar umsjónarmanns.

Ólafur varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 1952 og lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1955. Hann hélt utan til náms og nam meðal annars við Bossey, skóla Alkirkjuráðsins í Sviss og Luth. Seminary í St. Paul í Minnesota. Ólafur gegndi prestsembætti í Mountain í Norður-Dakóta-ríki í Bandaríkjunum 1955 - 1959. Hann var æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar 1960 - 1965 og sóknarprestur í Bústaðasöfnuði 1964 - 1989.

Ólafur var kjörinn biskup Íslands árið 1989 auk þess að vera sama ár gerður að heiðursfélaga í Prófastafélagi Íslands og Þjóðræknisfélagi Íslands í Vesturheimi tveimur árum síðar. Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Ebba Guðrún Brynhildur Sigurðardóttir og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×