Innlent

Rekstrarsinnaðir yfirmenn hafa hagnast á hlutafélagavæðingu RÚV

Mörður Árnason
Mörður Árnason

Mörður Árnason fyrrum þingmaður Samfylkingar og hollvinur Ríkisútvarpsins skrifar athyglisverðann leiðara á heimasíðu flokksins í gær. Þar fjallar hann um uppsasgnirnar á Rúv og veltir fyrir sér hvort þar sé á ferðinni brigð á fyrirheitum eða framúrkeyrsla í stofnuninni. Mörður var einn þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn umdeildum lögum þegar Rúv var breytt í opinbert hlutafélag.

„Hinsvegar er ljóst að fyrir liggja yfirlýsingar stjórnvalda um fullan stuðning við Ríkisútvarpið eftir að samþykktar voru umdeild lög um breytingu þess í opinbert hlutafélag. Þessi stjórnvöld hljóta ásamt yfirmönnum Ríkisútvarpsins - sem voru mjög áfram um breytingarnar og hafa sumir hagnast verulega á þeim í launum - að skýra út fyrir almenningi hvort heldur hér eru á ferð brigð á fyrirheitum eða frammúrkeyrsla í stofnuninni. Eða er ástæðan ósætti um markmið og leiðir?," skrifar Mörður í leiðara sínum.

Hann segir galla við þessa rekstrarleið vera legíó. Einn er sá að Ríkisútvarpið vanrækir skyldur sínar sem almannaútvarp „vegna þess að rekstrarsinnaðir yfirmenn sjá sér lítinn hag í slíkri dagskrá," skrifar Mörður.

Mörður telur einnig að markaðsstöðvarnar líti á RÚV sem keppinaut sem njóti óeðlilegs forskots með afnotagjaldinu sem á að koma á næsta ári. Hann segir einnig að þegar áskriftarféð er of lítið reyni fyrirtækið að sækja sér meira fé með auglýsingum og kostun. „Dagskráin mótast af þeirri markaðssókn, sem svo hefur auðvitað í för enn meiri árekstra við hinar stöðvarnar."

Og Mörður segir uppsagnirnar á RÚV dapurlegar.„Nú er þessi leið ein saman ekki fær því ljóst er að auglýsinga- og kostunarmarkaður dregst saman á næstunni, og því er boðað til uppsagna í Efstaleitinu. Það eru dapurleg tíðindi fyrir áhugamenn um Ríkisútvarpið og um fjölmiðlun á Íslandi. Dapurlegust hljóta þau þó að vera fyrir hina vígreifu baráttumenn opinbera hlutafélagsins. Eða hvað?"

Hægt er að sjá leiðara Marðar í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×