Innlent

StatoilHydro kemur inn í djúpborunarverkefni

Samstarfsaðilar um djúpboranir hér á landi undirrituðu í gær samning við hið norska StatoilHydro um aðkomu fyrirtækisins að djúpborunarverkefninu.

StatoilHydro tekur þátt í rannsóknarhluta djúpborunarverkefnisins og leggur um 104 milljónir króna í fyrstu holuna í Kröflu eins og segir í tilkynningu. Þar kemur einnig fram að forborun þeirrar holu niður á 100 metra dýpi hafi hafist í gær með jarðbornum Sögu frá Jarðborunum. Næsti áfangi borunar er fyrirhugaður seinna á árinu og er gert ráð fyrir að borun fyrstu djúpborunarholunnar ljúki á næsta ári og verður holan síðan blástursprófuð.

StatiolHydro er orkuframleiðsluangi norsku olíufélaganna Statoil og Hydro. Fyrirtækið starfar í yfir 40 löndum og er starfsmannafjöldi þess um 30.000 manns.

Að djúpborunarverkefninu standa Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkustofnun, Orkuveita Reykjavíkur, Alcoa auk StatoilHydro sem nú hefur bæst í hóp þeirra sem fjármagna rannsóknarþátt verkefnisins.

Í heild er áætlað að verja um 3,5 milljörðum til djúpborana og rannsókna þeim tengdum á næstu þremur til fjórum árum til viðbótar við um 150 milljónum sem þegar hefur varið í margvíslegan undirbúning allt frá árinu 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×