Innlent

Galopin kröfuganga á gamlársdag

Enn bætist í mótmælaflóruna. Galopna kröfugangan verður farin á gamlársdag, í þetta sinn undir nafninu Ógöngur 2008.

Galopna kröfugangan spratt ekki upp úr bankahruninu einu saman en „Áhugamenn um kröfugöngur" skipulögðu þá fyrstu árið 1999, sem þá var undir nafninu Meðganga. Síðan þá hefur gangan gengið undir nokkrum nöfnum, meðal annars Afturganga, Lausaganga og Leyniganga.

Gangan hefst við Stjórnarráðið klukkan 13.30, þar sem kveikt verður á neyðarblysum til að lýsa yfir andúð mótmælenda á „andvaralausum stjórnmála- og embættismönnum sem með aðstoð ábyrgðarlausra bankastjórnenda og siðlausra auðmanna komu á því nöturlega ástandi sem nú brennir upp heimili okkar, sviptir okkur atvinnutækifærum og framtíð," eins og segir á Facebook síðu göngunnar.

Frá Stjórnarráðinu verður gengið að Alþingi og þaðan á Hótel Borg, þar sem formenn stjórnmálaflokkanna verða gestir Kryddsíldarinnar á Stöð 2. Þar eru göngumenn hvattir til að tendra fleiri neyðarblis og hávaðasama kínverja. Þá er gestum frjálst að tjá óánægju sína með því að banka á glugga, skekja spjöld og fána eða sleikja rúður svo dæmi séu tekin.

Gestir eru hvattir til að taka með sér 2-3 blys, og er vakin athygli á því að flugeldasalan Gullborg á Bíldshöfða 18 gefur öllum þáttakendum göngunnar afslátt af neyðarblysum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×