Erlent

Tengsl milli farsímanotkunar mæðra og hegðunar hjá börnum

Ný umfangsmikil dönsk rannsókn gefur til kynna að verðandi mæður sem nota mikið farsíma meðan á óléttunni stendur eiga á hættu að börn þeirra þjáist af hegðunarvandmálum.

Hegðunarvandamálin sem hér um ræðir eru skortur á einbeitingu, ofvirkni og skertir félagslegir hæfileikar. Jörn Olsen, prófessor við Háskólann í Árósum, er einn þeirra sem stóðu að þessari rannsókn. Hann segir að sjá megi tölfræðilega fylgni á milli notkunnar farsíma hjá mæðrum og hegðunarvandamála hjá börnum þeirra síðar meir.

Niðurstöðurnar benda til að svo sé í 20 til 40 prósent tilvika. Rannsóknin var umfangsmikil og náði til 100.000 óléttra kvenna og 13.000 barna á sjö ára aldrinum.

Jörn Olsen segir að hugsanlega geti aðrar orsakir en örbylgjur frá farsímum valdið því að börnin eigi við hegðunarvandamál að stríða. Hann nefnir sem dæmi að mæður sem tala mikið í farsíma sinni börnum sínum kannski minna en aðrar mæður. Þetta þurfi að rannsaka nánar.

Hins vegar hafi niðurstöður rannsóknarinnar komið honum og samstarfsmönnum hans verulega á óvart þar sem ekkert hefur áður bent til að örbylgjur frá farsímum geti vandið hegðunarbreytingum hjá fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×