Skoðun

Framþróun og skyn- samleg auðlindanýting

Norðausturland hefur orðið fyrir því, eins og fleiri landsvæði á Íslandi, að sjávarútvegurinn sem var undirstaða velmegunar og framþróunar nánast alla síðustu öld hefur visnað með tilkomu kvótakerfis og tækniþróunar sem fækkað hefur störfum. Samþjöppun veiðiheimilda hefur svo enn aukið á neikvæðar afleiðingar fyrir atvinnulíf og búsetu víða um land.

Í Þingeyjarsýslu hefur um árabil verið unnið að því að auka fjölbreytni í atvinnulífi, m.a. til þess að takast á við þessar afleiðingar en einnig til að skapa forsendur fyrir sterkari samfélagsgerð til framtíðar þar sem skilyrði væru fyrir ungt fólk með mismunandi þekkingarbakgrunn til að hasla sér völl. Þrátt fyrir mikið starf hefur ekki tekist að halda í horfinu. Nýjar stoðir, mikilvægar sem þær eru, s.s. í ferðaþjónustu hafa ekki einar og sér megnað að standa undir nauðsynlegum viðgangi samfélagsins.

Snúum þróuninni viðNeikvæð íbúaþróun er staðreynd og segir 15% fólksfækkun á tíu árum sína sögu. Alvarlegt er að stærstur hluti brottflutta er ungt fólk og veldur það óhjákvæmilega eðlisbreytingu á samfélaginu. Víða er byggð komin að þeim þolmörkum að hún gæti hrunið og eftir stæði strjál búseta sem er ekki það sama og lífvænlegt samfélag. Með sama áframhaldi er framtíðin ekki björt fyrir svæðið. Samfélagið getur ekki boðið ungu fólki störf við hæfi og því skilar stór hluti þess sér ekki aftur heim í hérað að námi loknu þrátt fyrir að taugarnar séu sterkar til heimabyggðar. Úr könnunum má lesa að fjöldi brottflutta hefur áhuga á að snúa heim bjóðist atvinna við hæfi.

Til langs tíma hafa heimamenn horft til orkuauðlindanna til að styrkja stoðir atvinnulífs og búsetu í héraðinu. Ýmislegt hefur verið reynt og annað skoðað. Kísil­iðjan í Mývatnssveit var um árabil mikilvægur hlekkur í atvinnusögu héraðsins og raunar landsins alls. Dagar hennar eru nú taldir. Til harðviðarvinnslu á Húsavík var varið miklum tíma og fjármunum. Það verkefni gekk ekki upp. Vörubrettaframleiðsla sem nýtir hitaorku er í þróun í Mývatnssveit. Fjöldi annarra verkefna hefur í gegnum árin verið til skoðunar án þess að komast á framkvæmdastig.

Á undanförnum árum hefur tekist að þróa álversverkefnið þannig að hilli undir framkvæmdir. Um er að ræða niðurstöðu úr mjög löngu ferli og mikilli vinnu en ekki einhverja skyndiákvörðun þar sem aðrir kostir hafa ekki verið skoðaðir, eins og stundum mætti ráða af umræðunni.

Skynsamleg auðlindanýtingSú auðlindanýting sem uppbygging og rekstur álvers, ásamt afleiddri starfsemi, felur í sér mun hækka þekkingar- og menntunarstig vinnumarkaðarins á atvinnusvæðinu. Álverið eitt og sér mun hækka hlutfall starfa á atvinnusvæðinu sem krefjast framhaldsmenntunar og í því ljósi fær það góða einkunn á mælikvarða nýsköpunar og framþróunar í hagkerfinu. Það er alveg ljóst að nútímalegt álver eins og áætlað er að reisa er hátæknifyrirtæki í þeirri efnahagsgerð sem þetta svæði býr við og verður væntanlega tæknivæddasta fyrirtæki svæðisins.

Hækkandi þekkingarstigVerkefnið mun því hjálpa hinu svæðisbundna hagkerfi hér að þróast í átt að þekkingarhagkerfi, en hærra þekkingarstig á vinnumarkaði er það sem alls staðar er keppt að og öll samfélög sækjast eftir. Þekkingarhagkerfið er þannig ekki bundið við ákveðnar atvinnugreinar, heldur er um það að ræða að þáttur þekkingarinnar í öllum greinum atvinnulífsins, þ.m.t. auðlindanýtingu, er að aukast og þannig skapast forsendur fyrir meiri verðmætasköpun við nýtingu þeirra.

Með þeirri stækkun svæðisbundins heimamarkaðar sem álverið mun skapa, styrkjast forsendur fyrir fjölbreyttari þjónustustarfsemi og þar með fjölgun afleiddra starfa. Þau störf munu laða til sín menntað hæfileikafólk af ýmsu tagi. Það er í slíku fjölbreytilegu samfélagi sem flestir kjósa að búa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og fyrrverandi bæjarstjóri á Húsavík.




Skoðun

Sjá meira


×