Skoðun

Staða Íslands í samfélagi þjóðanna

Það er vaxandi þungi í umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök á Íslandi eru að endurmeta sína afstöðu til Evrópusambandsins og hefur Sjálfstæðisflokkurinn ákveðið að taka málið til athugunar á komandi landsfundi í janúar. Í því felst ekki að flokkurinn hafi nú þegar ákveðið að breyta sinni stefnu. Í þessu felst fyrst og fremst það, að flokkurinn telur ástæðu til þess að fram fari að nýju pólitískt mat á því, hvort hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið innan ESB eða utan.

Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar flokksins velti fyrir sér þessu máli í aðdraganda landsfundarins þannig að sem flest sjónarmið í málinu komi fram tímanlega til þess að flokksmenn geti vegið rök með og á móti aðild að sambandinu. Það eru einkum tvö sjónarmið sem takast á í umræðu um ESB, gjaldmiðillinn og auðlindirnar. Ég tel að menn hafi horft alveg framhjá þriðja sjónarmiðinu, sem er gjörbreytt staða Íslands eftir brotthvarf hersins.

Framtíð krónunnarÞað er grundvallaratriði, að menn geri sér grein fyrir því, að umsókn um aðild að Evrópusambandinu kemur okkur ekki undan því að takast á við þann alvarlega vanda sem nú blasir við íslenskri þjóð. Við þennan vanda verðum við að glíma sjálf og að mínu áliti verðum við gera það á grunni þess gjaldmiðils sem við nú höfum, krónunnar. Hvað við ákveðum að sé fyrir bestu fyrir þjóðina til lengri tíma, er svo annað mál. Krónan hefur reynst okkur vandmeðfarinn gjaldmiðill, ekki síst á liðnum árum, þegar útrás og þensla fjármálakerfisins var í algleymingi. Seðlabanki Íslands hefur átt erfitt með að nýta stýritæki sín til að halda aftur af vanda hagkerfisins og það er ljóst, að aðhald í ríkisfjármálum á liðnum árum var ekki fullnægjandi. Til þess að hægt sé að halda úti ábyrgri peningamálastefnu þarf ríki og Seðlabanki að ganga í takt og því miður voru yfirboðin á hinu pólitíska sviði ríkisfjármála of mikil. Þar verða stjórnmálamenn að horfa í eigin barm. Þar til viðbótar kemur, að þótt regluverk okkar á sviði verðbréfaviðskipta og fjármálamarkaðs hafi verið byggt á grunni ESB, vorum við Íslendingar að taka langtum stærri skref í einu á þessum markaði en aðrar þjóðir, enda afar stutt síðan að viðskipti í kauphöll hófust hér á landi í samanburði við nálæg lönd. Slíku fylgja verulegir vaxtarverkir og þá skapast hætta á því að eftirlitið fylgi ekki hraða markaðarins.

Margt bendir til þess að við getum ekki búið við eigin gjaldmiðil þegar til lengri tíma er litið. Staða krónunnar getur ekki ein ráðið því hvort ráðist verði í aðildarviðræður við ESB heldur tel ég að horfa verði sérstaklega til hagsmuna sjávarútvegsins en þó ekki síður hættu á vaxandi einangrun Íslands í samfélagi þjóða. Samband við umheiminnMeð brotthvarfi varnarliðsins árið 2006 lauk nánu utanríkissamstarfi milli Íslands og Bandaríkjanna sem staðið hafði frá því í seinna stríði. Við Íslendingar nutum góðs af þessu samstarfi með verulegri uppbyggingu hér heima með hjálp Bandaríkjamanna. Bandaríkjamenn reyndust okkur einnig góðir stuðningsmenn og vinir á vettvangi alþjóðastjórnmála og er vafalaust að þeir veittu okkur ágætt skjól á fyrstu árum lýðveldisins Íslands. Í kjölfar seinna stríðs tókum við veigamikil skref á sviði utanríkismála með þátttöku í ýmsum alþjóðastofnunum. Þau skref hafa reynst okkur heilladrjúg allar götur síðan. Seinna gerðumst við aðilar að EFTA og svo loks EES samningnum.

Við gerð þess samnings bjó Ísland við kjöraðstæður á alþjóðlegum vettvangi, með gott samband við Bandaríkin annars vegar og mjög eftirsóknarverðan samning við Evrópusambandið hins vegar. Þarna skapaðist ágætt jafnvægi fyrir þjóð norður í Dumbshafi sem hefur viðskiptahagsmuni beggja vegna Atlantsála.

Ég tel raunar að Bandaríkjamenn hafi verið fullfljótir á sér að hverfa á brott með herlið sitt frá Íslandi. Þeir telja sig ekki lengur hafa beina hagsmuni af því, hvernig mál skipast hér heima á Íslandi. Afleiðingar brotthvarfs þeirra fyrir okkur Íslendinga eru þó verulegar, enda hefur samband okkar við þá á alþjóðavettvangi trosnað nokkuð, sérstaklega þegar litið er til viðbragða bandaríska Seðlabankans í kjölfar bankahrunsins. Látum reyna á aðildarviðræðurRaunar sýndi bankahrunið hér mjög skýrt hver staða Íslands í alþjóðasamfélaginu er. Það virðist jafnvel sem nágrannaþjóðir okkar og vinir hafi fyrst tekið við sér í kjölfar vilyrðis lánafyrirgreiðslu frá Rússlandi og þá ákveðið að rétta okkur hjálparhönd. Þegar deilur vegna IceSave reikninganna mögnuðust kom berlega fram hve samstaða Evrópuþjóðanna er mikil gagnvart þeim sem utan við standa. Okkar staða reyndist því mun veikari en við áttum von á.

Ég tel að hag Íslendinga sé best borgið með því að vera í nánu sambandi við okkar nágrannaþjóðir. Þess vegna held ég, að til lengri tíma verði ekki hjá því komist að láta á það reyna, hvort aðildarviðræður að Evrópusambandinu geti skilað okkur þeim árangri að ná fram nauðsynlegu skjóli á alþjóðlegum vettvangi og ásættanlegum samningum vegna okkar brýnu hagsmuna í auðlindanýtingu. Ef slík niðurstaða fæst, er ég óhrædd við að leggja slíkan samning í dóm íslenskra kjósenda.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.



Skoðun

Sjá meira


×