Innlent

Ragna móðir Ellu Dísar: „Hélt hún myndi deyja“

Breki Logason skrifar
Ella Dís byrjar í lyfjameðferð seinna í dag.
Ella Dís byrjar í lyfjameðferð seinna í dag.

Ragna Erlendsdóttir móðir hinnar tveggja ára gömlu Ellu Dísar sem Vísir hefur fylgst með undanfarið er nú stödd í London með stelpuna. Ragna upplifið versta dag lífsins þegar Ella hætti skyndilega að anda og sjúkrabíllinn virtist aldrei ætla að koma. Ella er á görgæsludeild í London og byrjar seinna í dag í lyfjameðferð við sjálfsofnæmi, sem er þó ekki staðfest að hún sé með.

Mæðgurnar fóru út til þess að hitta lækni þann 11.júní. Ætlunin var að vera einungis úti í viku en sú dvöl ílengdist eftir að Ella veiktist.

„Ég hef aldrei fundið svona mikla hræðslutilfinningu og þennan dag. Hún byrjaði öll að hvítna og blána í fanginu á mér og hætti að anda. Ég hélt hún væri að deyja og þetta var versti dagur lífs míns," segir Ragna en Ellu var gefið súrefni í sjúkrabílnum og hefur verið á spítala síðan þá.

Ekki er vitað hvað það er sem hrjáir Ellu Dís en læknar úti í London telja líklegt að hún sé með sjálfsofnæmi.

„Hún er á gjörgæslu og var í öndunarvél í morgun. Seinna í dag byrjar hún í lyfjameðferð við sjálfsofnæmi sem þó er ekki hundrað prósent að hún sé með. Hún er samt alltaf að hætta að anda og hefur í sjálfu sér engu að tapa greyið," segir Ragna en foreldrar Rögnu hafa verið úti með henni en fóru heim með Jasmin, hina dóttur Rögnu, nú á sunnudaginn.

„Ég á síðan frændfólk sem býr hérna nokkra klukkutíma frá sem hefur verið að koma og vera hjá mér. Presturinn í íslenska sendiráðinu ætlar líka að koma til mín í kvöld og svo er pabbi hennar hérna og við skiptumst á að vera hjá henni."

Ragna hefur verið í sambandi við lækni Ellu Dísar heima á Íslandi sem hefur verið að vinna í því að fá sjúkraflug fyrir hana heim. „Það er samt mjög dýrt enda þarf hún að vera í öndunarvél og með lækni og hjúkrunarfræðing. Einnig þarf að koma sjúkrabíll út á flugvöl þannig að þetta er mjög viðamikið."

Vísir sendir mæðgunum baráttukveðjur til London.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×