Innlent

Hæstiréttur lækkar bætur í Subway-slysi

Hæstiréttur úrskurðaði fyrrverandi starfsmanni Stjörnunnar, sem rekur Subway-skyndibitastaðina, um helmingi minni bætur en héraðsdómur hafði dæmt henni vegna vinnuslyss.

Héraðsdómur hafð dæmt henni rúma eina og hálfa milljón í bætur vegna slyssins en Hæstiréttur lækkaði þá upphæð í tæpar 800 þúsund krónur.

Slysið varð með þeim hætti að brauðbakkar féllu ofan á hana þegar hún opnaði skáp. Hæstiréttur taldi að um tilkynningarskylt slys hefði verið að ræða og þar sem Stjarnan hefði ekki tilkynnt um það var fyrirtækið látið bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem gátu haft áhrif á sakarmat og voru talin óljós.

Fyrirtækið hefði ekki nægjanlega sinnt skyldum sínum við að tryggja öryggi á vinnustaðnum og bæri því fébótaábyrgð. Á hinn bóginn var talið að konan ætti sjálf nokkra sök á slysinu og hún því látin bera helming tjóns síns sjálf.

Einn dómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, skilaði sératkvæði í málinu og vildi sýkna Stjörnuna af bótakröfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×