Innlent

Sækir ekki um virkjanaleyfi vegna dómsmáls

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Friðrik Sophusson er forstjóri Landsvirkjunar.
Friðrik Sophusson er forstjóri Landsvirkjunar.

Landsvirkjun sækir ekki um leyfi vegna virkjana í neðanverðri Þjórsá á meðan að héraðsdómur hefur til meðferðar kæru á hendur fyrirtækinu, að sögn Friðriks Sophussonar forstjóra Landsvirkjunar.

,,Einn af landeigendunum á svæðinu hefur stefnt Landsvirkjun og ríkinu vegna málsins. Þetta dómsmál hefur fengið flýtimeðferð og við eigum von á því að héraðsdómur felli úrskurð sinn strax í haust. Við höfum ákveðið að sækja ekki um virkjanaleyfi á meðan svo er heldur halda áfram að semja við bændur og landeigendur en við höfum nú þegar samið við hóp þeirra á svæðinu," segir Friðrik.

Friðrik segir að Landsvirkjun sé ekki farin að huga að eignarnámi á svæðinu umhverfis neðanverða Þjórsá. ,,Við leggum áherslu á að semja við landeigendur," segir Friðrik. Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í byrjun maí ekki styðja eignarnám á svæðinu til þess að virkjanir verði að veruleika.

Í gær átti Landsvirkjun fund með fulltrúum sveitarstjórna við Þjórsá. ,,Fundurinn var mjög góður. Við fórum í gegnum undirbúninginn, hver staðan er í dag og hvernig hægt er að nýta orkuna. Við heyrðum einnig hugmyndir heimamanna um svæðið," segir Friðrik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×