Innlent

Verja þarf stöðu ríkissjóðs og útflutningsgreina

MYND/GVA

Verja þarf stöðu ríkissjóðs og stöðu útflutningsgreinanna og auka erlenda fjárfestingu í landinu til þess að bæta efnahagshorfurnar. Þetta er mat fjármálaráðherra sem tók þátt í utandagskrárumræðu um nýja þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins á Alþingi í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, var upphafsmaður utandagskrárumræðunnar og vísaði til orða forsætisráðherra á fundi Samtaka atvinnulífsins fyrir helgi. Þar hefði ráðherra sagt að of mikil opinber umræða væri óheppileg og gæti skapað óraunhæfar væntingar. Þá hefði fjármálaráðherra sagt að menn mættu ekki tala of mikið um þessa hluti. Nýjasti sökudólgurinn í efnhagsumræðunni væru ekki erlendir vogunarsjóðir eða erlendir fjölmiðlar heldur umræðan sjálf.

Steingrímur benti á að fjármálaráðuneytið hefði í síðustu viku sent frá sér þjóðhagsspá og það hefði vakið athygli að ráðuneytið væri minna svartsýnt um efnahagshorfur í öllum meginatrinum en Seðlabankinn sem hefði skömmu áður birt sína spá um þróun efnahagsmála. Spurði Steingrímur meðal annars hvort ráðherra teldi koma til greina að endurvekja Þjóðhagsstofnun sem veitt hefði vandaða þjóðhagsspá og jafnframt hvort ráðherra teldi að þjóðhagshorfurnar væru með þeim hætti að menn gætu sætt sig við þær.

Munur á spám þarf ekki að vera óeðlilegur

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði rétt að munur væri á spá fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans en það þyrfti ekki að vera neitt óeðlilegt við það. Stofnanirnar byggðu á mismunandi þjóðhagslíkunum og það væri algjör óþarfi að gera það tortryggilegt. Sagðist ráðherra telja að það væri ekkert betra að hverfa aftur til Þjóðhagsstofnunar því nú kæmu mun fleiri aðilar að spám og upplýsingar í efnahagsmálum væru meiri nú en í tíð Þjóðhagsstofnunar.

Ráðherra sagði horfur í efnahagsmálum alltaf að breytast og sagði um þá spurningu hvort horfurnar væru ásættanlegar að menn yrðu að vinna að því að þær bötnuðu. Það yrði gert með tvennu, að verja stöðu ríkissjóðs og sömuleiðis stöðu útflutningsgreinanna. Þá þyrfti frekari erlendar fjárfestingar inn í landið. Sagði Árni að þá tortryggni í umræðunni, sem forsætisráðherra hefði varað við í ræðu sinni á fundi Samtaka atvinnulífsins, væri einmitt að finna í orðum formanns Vinstri - grænna. Hún væri síst til þess fallinn að losa þjóðina úr þeirri stöðu sem vissulega væri uppi.

Ekki ástæða til að endurskoða fjárlög 

Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðunni, þar á meðal Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar. Hann benti á að þónokkrar breytingar hefðu orðið á þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá því í fyrrahaust og fram undan væri samdráttur í efnahagslífinu meðal annars vegna samdráttar í einkaneyslu og í byggingargeiranum.

Sagðist hann þóekki telja ástæðu til þess að endurskoða fjárlög þessa árs miðað við þriggja mánaða rekstur ríkisins en menn yrðu að horfa á hverja spá fyrir sig. Ef menn þyrftu að endurskoða fjárlögin myndi enginn víkja sér undan því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×