Innlent

Gjaldþrot blasir við þúsundum heimila

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.
Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.

Gjaldþrot blasir við mörg þúsund heimilum á landinu lækki fasteignarverð um 30 til 40 prósent og líkt spár gera ráð fyrir.

Lítil eftirspurn er nú á fasteignamarkaði en framboð að sama skapi mikið. Kaupendur virðast halda að sér höndum af ótta við verðhrun en Seðlabankinn spáir að fasteignaverð lækka um allt að 30 prósent að raunvirði á næstu árum.

Ráðgjafar- greiningarfyrirtækið IFS telur að raunverð á húsnæði þurfi að lækka um 35 til 40 prósent til að jafnvægi náist á markaðnum.

,,En yrði þessi neikvæða spá að veruleika þá þýðir það auðvitað að fjöldi fólks á ekki neitt í heimilum sínum og það mun bara flest flosna upp frá því að greiða af þessum lánum og geta ekki hreyft sig á einn eða neinn hátt," segir Ingibjörg Þórðardóttir formaður Félags fasteignasala.

Verulega hefur dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði eins og sjá má á þessum tölum yfir fjölda þinglýstra kaupsamninga. Það sem af er desembermánuði eru þeir aðeins 95 talsins.

,,Fasteignamarkaðurinn er alveg botnfrosinn núna. Það eru engir peningar sem eru aflvaki til þess að eitthvað gerist þar. Þannig að núna hækka lánin vegna verðbólgunnar og gengishækkana en fasteignin stendur í stað eða lækkar og lækkar," segir Sigurður Helgi Guðmundsson formaður Húseigendafélagsins.

Sem hefur þær afleiðingar fyrir fasteignaeigendur að fjarað undan veðinu. ,,Þá er fjarað undan veðinu og þau skulda umfram verðmæti veðsins og þau eru persónulega ábyrgir fyrir því. ef þeir geta ekki greidd þá getur það leitt til vandræða og hugsanlegrar nauðungarsölu og gjaldþrots í framhaldi af því," segir Sigurður Helgi.

Formaður félags fasteignasala segir nauðsynlegt að afnema verðtryggingu húsnæðislána til að hleypa nýju lífi í markaðinn.

,,Það þarf að hjálpa fyrstu kaupendum út á markaðinn. þeir eru þeir sem koma hjólunum af stað," segir Ingibjörg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×