Innlent

Íbúðalánasjóður og Alþjóðahús gera þjónustusamning

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs (t.v.) og Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, undirrita samninginn.
Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs (t.v.) og Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, undirrita samninginn.

Þjónustusamningur milli Íbúðalánasjóðs og Alþjóðahúss var undirritaður í dag. Markmið samningsins er að efla þjónustu við nýja íbúa í íslensku samfélagi.

Íbúðalánasjóður mun, í samvinnu við Alþjóðahús, stuðla að því að allar helstu upplýsingar sem viðskiptavinum sjóðsins standa til boða á íslensku verði einnig aðgengilegar á móðurmáli stærstu hópa innflytjenda.

Íbúðalánasjóður kaupir af Alþjóðahúsinu samkvæmt nánari skilgreiningu sjóðsins þýðingar á efni á vefsíðunum ils.is og ibudalan.is á pólsku, rússnesku, tælensku, víetnömsku og portúgölsku. Þá býðst þeim viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs sem þess óska túlkaþjónusta, þannig að þeir geti stundað viðskipti sín við sjóðinn vandræðalaust og af öryggi.

Á vegum Alþjóðahúss verða haldnir fyrirlestrar fyrir starfsmenn Íbúðalánasjóðs um málefni innflytjenda og aðlögun málfars þegar talað er við fólk sem kann lítið í íslensku. Þá tekur Íbúðalánasjóður saman fagorðasafn sem Alþjóðahús sér um að þýða á helstu tungumál innflytjenda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×