Innlent

Rukkað í fyrsta sinn fyrir eftirmeðferð SÁÁ

Þórarinn Tyrfingsson.
Þórarinn Tyrfingsson.

Eftir áramót verður í fyrsta sinn rukkað fyrir eftirmeðferð á vegum SÁÁ. ,,Þetta er merki um ákveðna stefnubreytingu í gjaldtöku í heilbrigðismálum," sagði Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi og formaður SÁÁ, sem var gestur Sölva Tryggvasonar í Íslandi í dag fyrr í kvöld.

Fram kom í þættinum að SÁÁ mun eftir áramót rukka skjólstæðinga sína um 50.000 krónur fyrir eftirmeðferð. Þórarinn vildi ekki segja til um hvort að gjaldtakan muni hafa áhrif á aðsókn fólks eftir meðferðarúrræðinu.

Þórarinn sagði að búið væri að stofna sérstakan styrktarsjóð til þess að greiða gjaldið fyrir þá sem geta ekki reitt fram 50.000 krónur. ,,Þú getur ekki sett svona gjald á og haldið því til streitu að allir borgi nema þeir geti sótt í styrktarsjóð eins og þennan," sagði yfirlæknirinn.

Um fjárlagafrumvarpið sagði Þórarinn: ,,Þegar kemur í aðra umræðu fjárlaganna að það eigi að skerða heilbrigðisþjónustuna um 5%, sem þýðir til dæmis á Vogi 20 milljóna niðurskurð þar, þá erum við mjög illa í stakk búinn til að takast á við hann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×