Innlent

Packard Sveins Björnssonar ekki til sýnis fyrir almenning

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Packard-bifreið Sveins Björnssonar eins og hún leit út áður en Sævar Pétursson bifreiðasmíðameistari hóf andlitslyftingu hennar.
Packard-bifreið Sveins Björnssonar eins og hún leit út áður en Sævar Pétursson bifreiðasmíðameistari hóf andlitslyftingu hennar. MYND/Þorvaldur Ö. Kristmundsson

Skilja má orðalag fréttar Vísis frá því í dag á þann veg að forsetabifreið Sveins Björnssonar verði til sýnis fyrir almenning á Bessastöðum á morgun. Var fréttin í samræmi við orðalag í fréttatilkynningu sem ritstjórninni barst.

Ritari forseta hafði samband og vildi árétta það til öryggis að bifreiðin yrði ekki til sýnis fyrir almenning. Félagar úr Fornbílaklúbbi Íslands kæmu á bifreiðum sínum til að skoða hinn aldna fák og auk þess væri fulltrúum fjölmiðla boðið að líta á gripinn. Embættið hefði hins vegar enga aðstöðu til að taka á móti gestum og gangandi og væri sú ekki raunin.

Bifreiðin sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti veitir viðtöku á morgun er Packard, árgerð 1942, sem var fyrsta forsetabifreið lýðveldisins. Var hún notuð á upphafsárum Sveins Björnssonar í embætti forseta og hefur nú verið gerð upp og færð til upprunalegs horfs.

Bifreiðin var keypt notuð frá Bandaríkjunum en bifreið sömu gerðar hafði verið gjöf Roosevelts Bandaríkjaforseta til Sveins Björnssonar en hún var um borð í Goðafossi þegar skipið var skotið í kaf 10. nóvember 1944.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×