Innlent

Stelpur á siglinganámskeiði gleymdust út á sjó

SB skrifar
Nauthólsvík
Nauthólsvík

Tvær stelpur á siglinganámskeiði í Nauthólsvík gleymdust út á sjó í gær. Mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en faðir annarar stúlkunnar kom til að sækja hana. „Misbrestur," segir starfsmaður Siglunes.

„Þær urðu viðskila við hópinn og starfsmennirnir sem sáu um námskeiðið misstu sjónar á bátnum. Þarna varð ákveðinn misbrestur sem við þurfum að taka á,“ segir Óttar Hrafnkellsson, deildarstjóri hjá Siglunesi.

Siglunes stendur fyrir siglinganámskeiðin fyrir Reykjavíkurborg. Námskeiðinu var lokið þegar faðir annarar stúlkunnar kom til að sækja hana. Þegar telpan fannst hvergi varð ljóst að hún var ennþá út á sjó.

„Þær rak yfir fjörðinn inn í lokaða vík þar sem þær hurfu á bak við varnargarða. Svo réðu þær ekki við að róa út og týndust,“ útskýrir Óttar og bætir við að um leið og mistökin komu í ljós hafi telpurnar verið sóttar.

Spurður hvort krakkarnir séu ekki taldir upp úr bátunum eftir að námskeiðinu lýkur segir Óttar að svo eigi að vera. Þarna hafi einfaldlega eitthvað klikkað.

Stelpunum tveimur var að vonum brugðið eftir svaðilförina en Óttar segir þær engu að síður hafa mætt aftur á námskeiðið í dag. „Þær líta eiginlega á þetta sem hálfgert ævintýri," segir hann.

Það er erfitt að ímynda sér þá tilfinningu sem grípur foreldri þegar hann kemst að því að barnið þess sé týnt úti á sjó. „Við höfum rætt við foreldrana og það verða engir eftirmálar af þeirra hálfu. Þeim stóð náttúrlega ekki á sama. Svo munum við fara yfir þetta mál með starfsfólkinu. Þetta er eitthvað sem má ekki koma fyrir aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×