Innlent

Spyr hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen

Styrmir Gunnarsson fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins.

Styrmir Gunnarsson skrifar merkilega grein í dag þar sem hann fjallar um evrópuumræðuna sem nú fer fram í Sjálfstæðisflokknum. Hann spyr m.a hvort við séum á leið til Munchen og vitnar til þess þegar Neville Chamberlain sneri sigri hrósandi heim til Bretlands frá Munchen með undirskrifað pappírblað frá Adolf Hitler sem átti að tryggja frið í heiminum.

Í greininni, sem birtist á vefsíðunni evropunefnd.is, setur Styrmir fram rök gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn samþykki aðildarviðræður að evrópusambandinu.

Hann segir ýmsa hafa leikið lausum hala í því tómarúmi sem skapast hefur í utanríkismálum á undanförnum árum.

„Forseti lýðveldisins hefur ferðast um heiminn, talað eins og þar væri fulltrúi stórþjóðar á ferð og flutt ræður, sem mörgum var þá ljóst að voru ekki annað en innihaldslaus orð en þjóðin öll gerir sér nú grein fyrir. Núverandi utanríkisráðherra hóf feril sinn í því embætti með barnalegum hugmyndum um, að Ísland gæti lagt eitthvað, sem máli skipti af mörkum til lausnar deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þessi ofurhroki á alþjóðavettvangi birtist skýrast í framboði okkar til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú er þessi blaðra sprungin," skrifar Styrmir í greininni.

Hann nefnir einnig að í umræðunum um málefni Íslands og Evrópusambandsins hafi komið fram það sjónarmið að á ferðinni sé friðþæging gagnvart Samfylkingunni til þess að koma í veg fyrir stjórnarslit.

„Með þeirri orðanotkun er raunverulega spurt, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en nú í haust voru liðin 70 ár frá því að Neville Chamberlain sneri sigri hrósandi heim til Bretlands frá Munchen með pappírsblað, sem þeir höfðu sett nafn sitt á, hann og Adolf Hitler og Chamberlain taldi að mundi tryggja frið í heiminum um okkar daga."

Styrmi dettur ekki í huga að Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en til þess að flokkurinn slysist ekki í þá veferð segir hann mikilvægt að grasrótin í flokknum taki af skarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×