Innlent

Frelsandi að grýta snjóboltum í Jón Ásgeir

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson.

Guðjón Heiðar Valgarðsson, mótmælandi, segir að það hafi verið frelsandi að kasta snjóbolta í andlitið á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs, í dag.

Hópur mótmælenda varð á vegi Jóns Ásgeirs í miðborg Reykjavíkur í dag þegar hann yfirgaf 101 Hótel rétt eftir hádegi. Líkt og kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 veittist hópurinn að Jóni og þurfti að kalla til lögreglu.

Guðjón Heiðar var meðal þeirra sem hittu Jón og segir hann á bloggsíðu sinni frá því þegar Jón kom út af hótelinu. Guðjón segist hafa spurt Jón af því hvort hann hafi komið í veg fyrir að ákveðin frétt væri birt í DV en fátt hafi verið um svör.

,,Því tók ég mér snjóbolta í hönd og henti honum í smettið á Jóni. Fleiri fylgdu í kjölfarið og fékk Jón vænar gusur af snjóslugsi yfir fína jakkann sinn," segir Guðjón Heiðar.

Guðjón Heiðar mælir með að fólk grípi til sama bragðs sjái það Jón, sem hann kallar fauta, á förnum vegi. Það sé afar frelsandi tilfinning.

Ekki náðist í Jón Ásgeir vegna málsins.

 
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×