Innlent

Opið beinbrot með hafnaboltakylfu - synjað um gæsluvarðhald

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Maður á þrítugsaldri liggur á sjúkrahúsi eftir alvarlega líkamsárás í Grafarvogi á sunnudagskvöldið þar sem annar veittist að honum með hafnaboltakylfu og veitti honum meðal annars opið beinbrot á sköflungi. Eins heldur fórnarlambið því fram að árásarmaðurinn hafi beitt hundi sem með honum var við árásina en það er óljóst.

 

Lögregla handtók meintan árásarmann og fór fram á gæsluvarðhald yfir honum eftir helgina. Héraðsdómari tók sér sólarhringsfrest til að úrskurða í málinu en synjaði að því loknu um gæsluvarðhald og hefur Vísir það eftir heimildamönnum innan lögreglustjóraembættisins að synjun um gæsluvarðhald í svo alvarlegu líkamsárásarmáli sé óvenjuleg.

 

Hér sé um að ræða afbrot sem varði að öllum líkindum við 218. grein almennra hegningarlaga og hugsanlega aðra málsgrein hennar sem fjallar um árás sem sérstaklega hættuleg er vegna aðferðar eða tækja sem beitt er við hana. Tilefni árásarinnar var uppgjör vegna kerru sem lánuð hafði verið og til stóð að endurheimta en árásarmaðurinn mun hafa talið sig vera eiganda kerrunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×