Innlent

Duftbréfin virðast hafa komið frá Bandaríkjunum

Carol van Voorst er sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Carol van Voorst er sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

Niðurstöður rannsókna á hvíta duftinu sem barst sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi í gær liggja ekki fyrir. Kathy Eagen, upplýsingafulltrúi sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, segir að beðið sé eftir niðurstöðum frá Landspítalanum. Hún segir í samtali við Vísi að Alríkislögreglan, FBI, rannsaki málið en talið er að bréfin, sem send voru sextán sendiráðum vítt og breitt um Evrópu, hafi komið frá Bandaríkjunum.

Bréfið barst sendiráðinu síðdegis í gær og segir Eagen að það hafi aldrei farið inn í sendiráðið heldur hafi það verið opnað utandyra. Slökkviliðið var kallað til og var innihaldið sent í rannsókn. Hún segir að efnagreining taki líklegast um sólarhring. Niðurstöður eru komnar um innihald fjórtán þeirra bréfa sem bárust sendiráðunum og í öllum tilvikum reyndist um hættulaust efni að ræða. Enn er beðið eftir niðurstöðum á Íslandi og í Hollandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×