Innlent

Ný sýning um uppbyggingu miðborgarinnar

Laugavegur 33 sem mun hýsa skipulagssýningu skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar.
Laugavegur 33 sem mun hýsa skipulagssýningu skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar.

Sérstök skipulagssýning um skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar verður opnuð af borgarstjóra að Laugavegi 33 á morgun, þjóðhátíðardaginn 17. júní, klukkan 13. Á sýningunni gefur að líta öll þau fjölmörgu verkefni sem eru í vinnslu hjá skipulags- og byggingarsviði og er ráðgert að sýningin verði opin í allt sumar. Upphaflega stóð til að opna sýninguna í byrjun mánaðarins en verkefnið hefur dregist á langin.

Með sýningunni gefst íbúum tækifæri til að kynna sér tillögur og hugmyndir um uppbyggingu og umbætur í miðborginni. Til sýnis verða m.a. skipulagstillögur fyrir Lækjargötu 12, Pósthússtrætisreitinn, Kárastígsreit, Vallarstræti, Vegamótastíg 7 - 9, Grófartorg og Menntaskólann í Reykjavík. Þær tillögur, sem skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkir á fundum sínum fyrir sumarfrí, bætast við sýninguna þegar líða tekur á sumarið sem þýðir að sýningin verður í stöðugri þróun.

Eru borgarbúar hvattir til að koma á sýninguna og skoða hvernig miðborg Reykjavíkur mun þróast á komandi árum en skipulagsmál hennar hafa verið mikið í deiglunni að undanförnu. Boðið verður upp á appelsínulímonaði og kleinur á opnuninni á morgun í tilefni þjóðhátíðardagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×