Erlent

Bandaríkjamenn vöruðu Indverja við yfirvofandi árás

Um 200 manns létust í árásunum.
Um 200 manns létust í árásunum. MYND/AP

Bandarísk stjórnvöld vöruðu þau indversku við yfirvofandi árás á Múmbaí áður en hún var gerð. Þetta hefur AP fréttastofan eftir fulltrúum í stjórn Bush, fráfarandi Bandaríkjaforseta. Aðrar heimildir benda til þess að ódæðismennirnir hafi litið svo á að þeir væru að taka þátt í sjálfsvígsárás.

Fulltrúar kjarnorkuveldanna Indlands og Pakistans reyna nú að bera klæði á vopnin og koma í veg fyrir átök milli landanna vegna morðanna í Múmbæ í síðustu viku.

Spenna milli landanna hefur magnast eftir að upplýsingar komu fram sem benda til þess að morðingjarnir í Múmbaí hafi tengst pakistönskum öfgasamtökum sem Indverjar telji Pakistana ekki hafa reynt nógu mikið til að uppræta.

Indversk stjórnvöld kröfðust þess í dag að Pakistanar tækju höndum og framseldu tuttugu eftirlýsta hryðjuverkamenn sem talið er að fari huldu höfði í Pakistan. Þeir hafi allir gerst sekir um hryðjuverk á Indlandi en þó ekki átt aðild að ódæðunum í síðustu viku. Framsal þeirra yrði til að lægja öldurnar að hluta.

Pranab Mukherjee, utanríkisráðherra Indlands, segir Indverja ekki íhuga að grípa til vopna gegn Pakistönum vegna málsins. Þeir áskilji sér þó rétt til að verja yfirráðasvæði sitt og grípa til viðeigandi ráðstafana gerist þess þörf.

Mukherjee sagði að erfitt yrði að halda áfram með friðarviðræður við Pakistana sem hófust 2004 nema ráðamenn í Íslamabad grípi til aðgerða gegn þeim samtökum sem morðingjarnir í Múmbaí eru taldir tengist.

Pakistanar hafa boðið fram aðstoð við rannsókn á ódæðunum og vilja að hún verði sameiginleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×