Innlent

Franskar herþotur æra Keflvíkinga

MYND/Víkurfréttir

Íbúar í Reykjanesbæ hafa kvartað til bæjarfélagsins vegna hávaða frá Mirage þotum franska flughersins sem nú sér um loftrýmiseftirlit yfir landinu. Bæjarbúar segja að hávaðinn í vélunum sé mun meiri en hann var þegar Bandaríkjamenn voru hér á sínum tíma með sínar herþotur. Ekki hefur borið á kvörtunum hjá utanríkisráðuneytinu.

Hjá þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar fengust þær upplýsingar að nokkuð hafi borið á kvörtunum vegna þessa og raunar sagðist starfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar vel geta tekið undir þær sjálf. Stundum væri hávaðinn svo mikill að ekki sé hægt að tala í símann.

„Það fer ekki framhjá neinum," sagði þjónustufulltrúinn í samtali við Vísi, aðspurð hvort hún hefði orðið vör við aukinn hávaða. „Þeir virðast vera að fljúga meira yfir bæinn sem Bandaríkjamennirnir gerðu ekki," sagði hún og bætti við að síðast hefði hún heyrt í þotu rétt áður en blaðamaður hafði samband. „Við erum mjög vön svona hlutum hér í Keflavík en ég hef heyrt í mörgum nýlega og fólk er orðið dálítið pirrað yfir þessu."

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Vísi að málið hefði ekki borist inn á borð hennar. „Það hafa ekki borist kvartanir nýlega vegna þessa flugs," sagði Urður. „Það komu nokkrar kvartanir í byrjun en ég hafði samband við þá og bað þá um að fara seinna af stað á morgnana og þeir urðu við því," sagði Urður.

Hún sagði einnig að lögð sé áhersla á að truflun vegna þotnanna sé sem minnst fyrir bæjarbúa. „Þeim er uppálagt að taka ekki á loft snemma á morgnana og seint á kvöldin. Þá er flug yfir íbúabyggð takmarkað eins mikið og nokkur kostur er," sagði Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×