Innlent

Farandsalinn kom við á Blönduósi

Nokkrar myndanna sem farandsalinn bauð til sölu.
Nokkrar myndanna sem farandsalinn bauð til sölu.

Farandsalinn sem sagt var frá fyrr í morgun hér á Vísi virðist hafa komið við víðar en á Vestfjörðum.

Kona á Blönduósi segir að fyrir rúmri viku hafi maður bankað upp á hjá sér og boðið til sölu málverk sem hann var með í poka. Málverkunum svipar til þeirra sem sjást á mynd hér til hliðar og voru gerð upptæk þegar farandsalinn var handtekinn á Ísafirði.

Maðurinn virtist ekki tala ensku en rétti konunni þess í stað miða. Á miðanum hafði verið skrifað á íslensku að málverk farandsalans væru til sölu en kona sagðist ekki hafa áhuga.

"Hann hristi þá bara hausinn og virtist nokkuð fúll. Því næst gekk hann í burtu," segir konan við Vísi.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í morgun handtók lögreglan á Vestfjörðum síðast liðið þriðjudagskvöld farandsölumann á Ísafirði sem hafði verið á ferð í byggðarlögum á norðanverðum Vestfjörðum og líklega víðar um land.

Maðurinn hafði gengið í hús og boðið til sölu olíumálverk og annan varning. Maðurinn er af erlendu þjóðerni og hefur hvorki dvalar- né atvinnuleyfi hérlendis. Hann er grunaður um að hafa flutt varninginn ólöglega til landsins og skorti hann jafnframt nauðsynleg leyfi til sölumennskunnar.

Maðurinn gisti fangageymslur á Ísafirði á meðan mál hans var rannsakað og s.l. miðvikudag ákvarðaði Héraðsdómur Vestfjarða að maðurinn skyldi vera í farbanni til 21. júlí skv. beiðni lögreglustjórans á Vestfjörðum.

Lagt hefur verið hald á 905 myndir og muni sem tilheyra manninum auk nokkurs af fjármunum. Rannsókn málsins er lokið og hefur lögreglustjóri þegar gefið út ákæru á hendur manninum fyrir ofangreind brot. Maðurinn er frjáls ferða sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×