Innlent

Sökuðu Kastljós um ófrægingarherferð gegn Jónínu Bjartmarz

Birnir Orri Pétursson og Lucia Celeste Molina Sierra.
Birnir Orri Pétursson og Lucia Celeste Molina Sierra.

Aðstandendur Kastjóss voru sakaðir um að hafa verið í ófrægingarherferð gegn Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, í meiðyrðamáli sem sonur Jónínu og tengdadóttir hafa höfðað vegna umfjöllunar Kastljóss um ríkisborgararétt tengdadótturinnar. Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Birnir Orri Pétursson og Lucia Celeste Molina Sierra, sonur og tengdadóttir Jónínu Bjartmarz, fara fram á 3,5 milljónir króna í miskabætur frá Páli Magnússyni útvarpsstjóra og Kastljósfólkinu Helga Seljan, Þórhalli Gunnarssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Sigmari Guðmundssyni vegna ærumeiðinga. Kastljós fjallaði um það í lok apríl á síðasta ári að Lucia hefði fengið skjóta afgreiðslu á umsókn um ríkisborgararétt hjá Alþingi en Jónína sagðist ekki hafa komið nálægt afgreiðslu umsóknarinnar. Lucia fer fram á 2,5 milljónir króna en Birnir eina vegna umfjöllunarinnar.

Segist hafa verið notuð til að ná til Jónínu

Bæði Lucia og Birnir voru viðstödd aðalmeðferð í morgun. Lucia sagði við skýrslutöku að sér fyndist eins og hún hefði verið notuð til þess að ná til Jónínu Bjartmarz og að markmiðið hefði verið að skaða ráðherrann fyrrverandi. Fólk hefði haldið vegna umfjöllunar Kastljóss að hún hefði fengið ríkisborgarrétt vegna tengsla við Jónínu en ekki vegna eigin ágætis.

Lögmaður Ríkisútvarpsins spurði Luciu hvort Jónína hefði hjálpað henni að fylla út umsókn um ríkisborgararétt en því neitaði Lucia. Hún var enn fremur spurð hvort hún hefði rætt við fjölmiðla um málið meðan það var í hámæli og sagðist hún hafa rætt við Stöð 2. Hvorki hún né Birnir hefðu rætt við Kastljós og Kastljósfólk hefði ekki haft samband við þau.

Birnir Orri sagði við skýrslutökuna að hann hefði fyrst haldið að einhver misskilningur væri á ferð en síðar hefði komið í ljós að um ófrægingarherferð gegn móður hans væri að ræða. Málið hefði valdið honum áhyggjum og sárindum.

Ríkisborgararéttur til þess að koma Luciu til náms í Bretlandi

Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóri Katsljóss, var næstur í stúku og var meðal annars spurður um fréttamat Kastljóss. Hann sagði fastar reglur gilda um það hvernig teknar væru ákvarðanir um umfjöllunarefni. Í þessu tilviki hefðu borist ábendingar frá tveimur aðilum sem verið hefðu í stöðu til að vita um málið og þekktu það. Það hefði orðið til þess að Kastljós hefði ákveðið að skoða málið nánar.

Þá sagði Sigmar að Jónína Bjartmarz hefði komið í Kastljós vegna málsins og veifað þar bæklingum um mannréttindabrot gegn konum í Gvatemala, þaðan sem Lucia er, þegar raunveruleg ástæða fyrir því að veita Luciu ríkisborgararétt hefði verið sú að koma henni til náms í Bretlandi.

Hann tók þó fram að umfjöllun Kastljóss hefði ekki snúist um Luciu heldur starfshætti allsherjarnefndar og þriggja manna undirnefndar hennar sem fjallar um veitingu ríkisborgararéttar. Starfshættir nefndarinnar hafi verið skoðaðir en það hefi reynst erfitt að afla gagna og upplýsinga um störf undirnefndarinnar. „Hún sótti um ríkisborgarrétt og hún má það alveg. Það er hins vegar afgreiðsla þingsins og stjórnsýslunnar sem við vorum að skoða," sagði Sigmar og sagði Kastljósfólk hafa talið að upplýsingarnar ættu erindi til almennings.

Ekki reynt að koma höggi á Jónínu
MYND/Páll Bergmann

Helgi Seljan, fréttamaður Kastljóss, var einnig spurður út í málið, meðal annars hvort Kastljósfólk hefði íhugað hvort heimildarmaður þeirra væri hugsanlega að brjóta lög. Því svaraði hann neitandi.

Þá hafnaði Helgi því alfarið að með umfjölluninni hefði verið reynt að koma pólitísku höggi á Jónínu. Þá væri verið að ráðast gegn flestum stjórnmálaflokkum landsins enda hefði verið fjallað um vinnubrögð allsherjarnefndar. Dómari spurði Helga hvort það hefði haft áhrif í málinu að stutt hefði verið til þingkosninga en því neitaði Helgi alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×