Lífið

Georg seldur í 30 þúsund eintökum

Georg Bjarnfreðarson
Georg Bjarnfreðarson

DVD-útgáfa með sjónvarpsþáttaröðinni Dagvaktinni hefur náð þeim áfanga að seljast í yfir 10 þúsund eintökum og er þar með komin í platínusölu.

Þar með hafa DVD-diskar með ævintýrum þeirra félaga Georgs Bjarnfreðarsonar, Ólafs Ragnars og Daníels selst í vel yfir 30 þúsund eintökum en Næturvaktin hefur selst í nálægt 20 þúsund eintökum og er enn að seljast mjög vel.

Fimmmenningarnir sem standa að baki þessum geysivinsælu sjónvarpsþáttum sem sýndir voru á Stöð 2, þeir Ragnar Bragason leikstjóri, Ævar Grímsson handritshöfundur og leikararnir Pétur Jóhann Sigfússon, Jón Gnarr og Jörundur Ragnarsson fengu afhenda platínuplötur sínar til vitnisburðar um árangurinn, tveimur dögum fyrir jól en útgefandi gerir ráð fyrir að diskurinn eigi eftir að seljast í yfir 15 þúsund eintökum.

Þess má geta að félagarnir vinna nú hörðum höndum að því að skrifa handritið að nýrri þáttaröð sem mun heita Fangavaktin.

Bendir titillinn til þess að sú þáttaröð eigi eftir að gerast bak við lás og slá enda lauk Dagvaktinni þannig að Georg Bjarnfreðarson var ekið á brott í handjárnum eftir að hafa játað fyrir lögreglunni að hafa verið valdur að dauða hótelstýrunnar Guggu.

Ef marka má vinsældir „Vaktanna“ á DVD má búast við því þegar upp verður staðið að yfir 50 þúsund eintök eigi eftir að seljast samanlagt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.