Innlent

Segir dóm Hæstaréttar ömurlegan

Andri Ólafsson skrifar

"Þetta kemur mér á mjög óvart, ég er greinilega enginn séra Jón," segir Nanna Westerlund en hún tapaði í dag máli sem hún höfðaði gegn íslenska ríkinu eftir að í ljós kom að hún ssmitaðist af lifrarbólgu C við blóðgjöf fyrir 18 árum.

Nanna þurfti að leggjast inn á sjúkrahús vegna nýrnasjúkdóms og fékk þar gefið blóð. Árið 1993 kom í ljós að að blóðið hafði verið sýkt af lifrarbólgu C. Nönnu var hins vegar ekki gerð grein fyrir því fyrr en árið 1999.

Nanna hélt því fram að það saknæma athafnaleysi starfsmanna Landspítalans að tilkynna henni ekki um sjúkdóminn fyrr en þetta ár hefði valdið henni mikilli líkamlegri og andlegri vanlíðan og þverrandi starfsorku. Á þetta féllst Héraðsdómur Reykjavíkur í dómsniðurstöðu sinni og viðurlenndi bótaskyldu spítalans gagnvart Nönnu.

Í niðurstöðu Hæstaréttar í dag segir hins vegar að Nanna hafi ekki sýnt fram á að umrætt athafnaleysi starfsmannanna hafi verið orsök vanlíðunar hennar og skerts starfsþreks. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu hennar um miskabætur.

"Ég veit ekki hvað er hægt að gera í þessu, þetta er alveg fráleitt, hreint út sagt ömurlegt," segir Nanna þegar Vísir innti hana eftir viðbrögðum við dómi Hæstaréttar. Hún ætlar að ráðfæra sig við lögmann sinn eftir helgi og fara yfir málð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×