Lífið

Hættir að taka svefntöflurnar þegar tónlistin hljómar

Óskar Einarsson píanóleikari og kórstjóri.
Óskar Einarsson píanóleikari og kórstjóri.

„Ég hef lengi haft gaman að leika á píanó rólega slökunartónlist bæði fyrir mig sjálfan og einnig þá sem það vilja hlusta, svarar Óskar Einarsson píanóleikari og kórstjóri sem gefur út slökunardisk sem ber heitið „Hvíld".

„Ég hélt miðnæturtónleika á Jónsmessu árið 2002 þar sem ég lék  af fingrum fram rólega tónlist. Eftir þá tónleika fékk ég löngun til að gera heilan disk þar sem ég léki á píanó rólega hvíldartónlist sem gæti hjálpað fólki að slaka á. Það var svo ekki fyrr en á síðasta ári 2007 að þetta fór í gang," segir Óskar aðspurður út í slökunardiskinn.

„Ég hafði verið gestur í baðstofunni í Laugum og heyrt þar allskonar slökunartónlist og hugsaði með mér að nú ætti ég að drífa mig í þessu."

„Ég hafði sambandi við Bjössa og Dísu í World Class og tóku þau mjög vel í það að ég gerði disk fyrir þau. Til að gera langa sögu stutta þá voru margir sem höfðu áhuga á að eignast þessa tónlist eftir að hafa heyrt hana í Laugar spa og Dísa hvatti mig til að gefa þetta út til þess að fleiri gæti notið þess að hlusta," segir Óskar.



Sögulegur úgáfudagur

„Diskurinn kom svo út þann 29. september afdrifaríka dag þegar fyrsti bankinn hrundi. Lokalagið á disknum er einmitt „Lífið heldur áfram" en þá hafði maður enga hugmynd um að svona mundi fara í þjóðfélaginu."

„Ég hef aldrei fengið svo mikið af þökkum og kveðjum fyrir nokkuð sem ég hef gert eins og þennann disk. Ég hef fengið tölvupóst og sms frá Bandaríkjunum, Noregi og allsstaðar á Íslandi þar sem fólk lýsir ótrúlegri upplifun eftir að hafa hlustað á diskinn.

Hætt að taka svefntöflurnar

„Eldri kona sagðist hafa hætt að taka svefntöflurnar sínar eftir að hún fékk diskinn og núna sofnar hún vært við tónlistina."

„Ég fékk líka kveðju frá annarri konu sem lést núna fyrr í mánuðinum úr krabbameini sem sagði hafa loksins náð góðri hvíld og náð að sofna vel eftir að hafa fengið diskinn tveimur vikum áður en hún féll frá," segir Óskar.

Viðbrögðin láta ekki á sér standa

„Ég hef fengið mörg viðbrögð frá foreldrum ungabarna og eldri barna líka sem segja frá því hversu mikil áhrif þetta hefur á börnin þeirra."

„Sonur minn sem er með ADHD sofnar út frá þessum diski á hverju kvöldi og hefur hlustað á píanótónlist sem ég hef búið til fyrir hann í mörg ár," segir Óskar.

„Það er eins og þessi tónlist henti öllum aldurshópum og öllum stéttum fólks, ráðherrum, kennurum eða leigubílsstjórum. Margir hafa sagt mér að þessi diskur gangi í svefnherberginu alla dag og einnig í bílnum í umferðarstressinu."

„Tónlistin eru frumsamin og tilgangurinn hjá mér er að ná að leiða hlustandann frá ólgu hversdagsins inn í langþráða kyrrðarstund og hvíld hugans," segir Óskar að lokum og bætir við að best er að kaupa diskinn á vefnum Hljómar.is en einnig fæst hann í helstu hljómplötuverslunum og í Laugum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.