Erlent

Börn í Búrma berskjölduð fyrir sjúkdómum

Starfsmenn á vegum UNICEF halda áfram að ferðast til svæða sem urðu fyrir barðinu á fellibylnum Nargis, til að meta brýnustu þörf barna og kvenna og dreifa nauðsynlegum hjálpargögnum.

„Tíminn er afar dýrmætur," sagði Ann M. Veneman, framkvæmdastjóri UNICEF í tilkynningu. „Fyrir var UNICEF með brigðir af neyðargögnum í Mjanmar, sem starfsfólk í landinu vinnur nú að því að dreifa eins fljótt og auðið er. Og fleira starfsfólk og meiri birgðir eru á leiðinni. Börn eru afar berskjölduð gegn sjúkdómum og hungri í aðstæðum sem þessum og þau þurfa tafarlausa aðstoð til að komast af."

Á þessu stigi er talið að börnum standi mesta ógnin af skorti á neysluhæfu vatni og bágu hreinlæti, vosbúð og næringarskorti. Hættan á að börn fái niðurgang eykst, en slíkt getur leitt til dauða. Sjúkdómar eiga auðvelt með að breiðast út í stöðnuðu flóðavatninu. Rakinn er kjöraðstæður fyrir moskítóflugur og eykur líkurnar verulega á útbreiðslu malaríu og beinbrunasóttar. Sérfræðingar UNICEF á sviði vatns og hreinlætis hafa einnig áhyggjur af því að bilanir í orku- og holræsiskerfum leiði til aukinnar hættu á sýkingum og sjúkdómum sem berast með vatni, svo sem kóleru og blóðkreppusótt.

Hægt er að styrkja hjálparstarf UNICEF í Mjanmar á slóðinni www.unicef.is/mjanmar .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×