Innlent

Frítt í strætó flækir rekstur Strætós

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, er stjórnarformaður Strætó bs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, er stjórnarformaður Strætó bs.

Ármann Kr. Ólafsson, stjórnarformaður Strætós bs., segir það flækja rekstur fyrirtækisins þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ólíkar gjaldskrár.

,,Við erum að reka saman eitt fyrirtæki og það væri skemmtilegri hugmyndafræði ef allir myndu ganga í takt," segir Ármann.

Bæjarráð Garðabæjar ákvað nýverið að taka ekki áfram þátt í niðurgreiðslum í strætó fyrir námsmenn í bæjarfélaginu. Borgarráð ákvað á fundi í morgun að halda áfram þátttöku í verkefninu. Í Reykjavík er jafnframt stefnt að frekari niðurfellingu fargjalda fyrir börn, unglinga, aldraða og örykja. Undanfarin tvö ár hafa eldri borgarar í Hafnarfirði fengið gjaldfrjálst í strætó.

Háskólanemum og menntaskólanemum á höfuðborgarsvæðinu bauðst í vetur að ferðast í strætó sér að kostnaðarlausu. ,,Verkefnið hefur gengið mjög vel," segir Ármann. Farþegum strætisvagna hefur fjölgað mikið frá því að verkefninu var ýtt úr vör.

Ármann segir að rekstrarkostnaður Strætós hafi aukist talsvert á árinu í kjölfar hækkandi benínverðs og gengisfalls krónunnar. ,,Endar munu ekki ná saman. Sveitarfélögin verða að skoða þessa hluti í samhengi þegar ákvarðanir eru teknar um að einstakir hópar fái frítt í strætó."








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×