Erlent

Mynduðu lögreglumenn lemja þrjá menn fyrir umferðarlagabrot

Bandaríkjamenn eru æfir vegna myndbands sem birt var í gærkvöldi. Það sýnir hóp lögreglumanna í Fíladelfíu berja þrjá menn sem þeir höfðu stöðvað vegna umferðalagabrots.

Það var myndatökumaður svæðisstöðvar í borginni sem náði atburðinum á myndband. Hann var á ferð í þyrlu yfir vettvanginum.

Þrír lögreglubílar stöðvuðu ökutækið. Lögreglumennirnir í þeim dróu síðan þremenningana út úr honum. Þeim er haldið niðri, einn er kýldur og annar barinn með kylfu. Sparkað er í mennina. Talsmaður lögreglu sagði þetta líta illa út en yfirvöld vildu ekki dæma í málinu áður en það hefði verið kannað ofan í kjölinn.

Að sögn talsmanns lögreglu voru lögreglumennirnir sem stöðvuðu þremenningana í útkalli vegna skotárásar nærri vettvanginum. Lögreglumenn í Fíladelfíu hafa verið á nálum síðan á laugardaginn þegar starfsbróðir þeirra var skotinn til bana þar sem verið var að fremja rán. Einn þriggja ræningja í því máli gengur enn laus.

Lögmaður þremenninganna segir myndbandið sýna lögreglu beita óhóflegu valdi í smávægilegu máli. Honum hafi verið tjáð af lögreglu að þremenningarnir verði kærðir fyrir líkamsárás gegn lögreglumönnunum, óvíst er hvort lögreglumennirnir verða kærðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×