Innlent

Á annan milljarð í skólalóðir

MYND/GVA

Verja á 1,6 milljörðum króna í að bæta aðstöðu á lóðum grunnskóla í borginni á næstu fimm árum samkvæmt áætlun sem framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar hefur sett fram.

Markmiðið er að lóðirnar gegni betur en áður hlutverki sínu sem vettvangur fyrir börn, starfsfólk og íbúa í leik, námi og starfi. Um 600 milljónir af fjármunum fara í hönnun og framkvæmdir á þessu ári og því næsta.

Reykjavíkurborg á og rekur 37 grunnskóla og nær áætlunin til 30 þeirra en lóðir hinna eru nýlegar eða hafa nýlega verið endurgerðar eins og segir í tilkynningu borgarinnar. Þá er einnig á áætlun að taka fjóra sparkvelli eða boltagerði í notkun á þessu ári og á næsta ári er fyrirhugað að boltagerði verði sett upp við fjóra aðra skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×