Innlent

Flóttatilraun fanga mistókst

Gæsluvarðhaldsfangi, sem verið var að flytja af Litla-Hrauni í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, reyndi að flýja þegar hann fór út úr bifreið sem flutti hann á milli staða. Maðurinn var handsamaður um mínútu eftir að hann flúði, að sögn Páls Egils Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar.

Páll segir að maðurinn hafi reynt að hlaupa á brott um leið og hann kom út úr bifreiðinni. „Einhverjir kunna að velta fyrir sér af hverju maðurinn var ekki í handjárnum, en við erum bundnir af meðalhófsreglu og fangaverðir mátu það þannig að það væri ekki nauðsynlegt að hafa hann í járnum. Fangaverðirnir voru hins vegar fljótir að ná honum," segir Páll.

Páll segist ekki geta greint frá ástæðum þess að maðurinn er í gæsluvarðhaldi. Hann hafi hins vegar ekki alvarleg brot á bakinu og ekki talinn hættulegur. Hann verður hins vegar settur í einangrun vegna flóttatilraunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×