Innlent

Sniglarnir kalla eftir bættri umferðarmenningu

Jón Hákon Halldórsson skrifar

„Við sem erum á hjólum erum gjörsamlega óvarin, en fólk hikar ekki við að keyra fyrir okkur," segir Ólafur Hrólfsson, upplýsingafulltrúi Sniglanna. Fjölmiðlar hafa í sumar birt auglýsingu Umferðarstofu þar sem vakin er athygli á því að ökumenn bifreiða veiti ökumönnum bifhjóla meiri eftirtekt. Ólafur segir þessar auglýsingar vera til mikils sóma og að Sniglarnir hafi tekið þátt í auglýsingaherferð í útvarpi þar sem tekið sé á sama atriði.

„Við viljum bara fá fólk til að reyna að keyra miðað við aðstæður. Það þarf að hafa það í huga að það að keyra á 10 km meiri hraða skilar fólki yfirleitt bara tveimur mínútum fyrr á staðinn," segir Ólafur. Hann segir ökumenn allt of kærulausa í umferðinni. Þeir gæti ekki að sér fyrr en einhver nákominn látist í slysi. „Maður er að sjá kvenfólk mála sig og tala í síma á meðan það er að keyra," segir Ólafur og spyr sig hvernig fólk geti ekið við slíkar aðstæður.

Ólafur segir að fólk sem finni hjá sér þörf fyrir að stunda glæfraakstur, hvort sem er á bifhjóli eða bifreiðum, þurfi að finna sér staði til að aka á þar sem það ógni ekki lífi eða heilsu annarra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×