Erlent

Ólympíueldurinn kominn til Ástralíu

Ólympíueldurinn kom til Canberra, höfuðborgar Ástralíu, í kvöld. Lent var með eldinn á herflugvelli þar sem fjöldinn allur af lögreglumönnum beið hans.

Mikil öryggisgæsla hefur verið boðuð á götum Canberra á meðan hlaupið verður með eldinn um borgina en búist er við miklum mótmælum. Yfirvöld í Ástralíu eru staðráðinn í að öngþveiti líkt því sem myndaðist í London og í París nýverið endurtaki sig ekki en þá settu mikil mótmæli svip sinn á hlaupið með eldinn.

Talsverð spenna er í Canberra vegna þessa.

Kínverjar vonuðust til þess að hlaupið með eldinn yrði tákn um sameiningu en þess í stað hefur hlaupið verið notað til þess að vekja athygli á stöðu mannréttindamála í Tíbet og víðar í Kína.

Þó von sé á fjölmennum mótmælum á morgun þegar hlaupið verður með eldinn um Canberra er einnig búist við því að nokkur þúsund Kínverjar muni halda fund til stuðnings kínverskum stjórnvöldum. Mikil áhersla verður lögð á að mótmælendum og stuðningsmönnum Kínverja lendi ekki saman.

Reuters greindi frá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×