Erlent

Deilt um risavaxið kafbátabyrgi í Bremen

Þýski herinn og borgaryfirvöld í Bremen eru nú komin í hár saman vegna kafbátabyrgis frá tímum Hitlers sem staðsett er á hafnarsvæði borgarinnar

Þessir aðilar geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að bera kostnaðinn af því að viðhalda kafbátabyrginu. Það er risavaxinn steinsteypukumbaldi, 426 metra langur, 97 metra breiður og 25 metra hár. Og þakið er einir sjö metrar á þykkt.

Kostnaður sökum viðhalds nemur yfir sjötíu milljónum króna á ári en um 10.000 ferðamenn skoða þetta mannvirki árlega. Og nú þarf að fara í viðamiklar endurbætur á byrginu þar sem steypan er farin að gefa sig. Af þessum sökum hefur þýski herinn sett kafbátabyrgi þetta á sölulista hjá sér. Hinsvegar eru bæði stjórnvöld í Berlín og Bremen sammála um að byrginu beri að halda við.

Kafbátabyrgið var á sínum tíma byggt af hinum alræmdu Todt samtökum árið 1943 og stærstur hluti þeirra verkamanna sem unnu við byggingu þess voru stríðsfangar og fólk sem þvingað var til vinnu fyrir nasistastjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×