Innlent

Samfylkingin nálægt hreinum meirihluta

Samfylkingin er nálægt því að ná hreinum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur ef marka má könnun sem Gallup gerði og RÚV greindi frá í kvöldfréttum sínum. Flokkurinn bætir við sig þremur borgarfulltrúm og fengi sjö og einn borgarfulltrúi bætist í hóp Vinstri grænna í Ráðhúsinu sem fengju þá þrjá. Næsti maður inn væri hins vegar fulltrúi Samfylkingarinnar sem færi inn á kostnað Sjálfstæðismanns.

Sjálfstæðismenn tapa tveimur fulltrúum og fengi flokkurinn 31 prósent atkvæða og fimm fulltrúa ef kosið væri í dag. Það væri langversta útreið flokksins í borginni en Sjálfstæðisflokkur hefur aldrei fengið minna en 40 prósent í kosningum í Reykjavík.

Næðu niðurstöður könnunarinnar fram að ganga í kosningum kæmist Ólafur F. Magnússon ekki inn og heldur ekki Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Samkvæmt þessu hefur fylgi Samfylkingar aukist um 6,5 prósent frá því Gallup mældi í febrúar. Þá auka Vinstri grænir við sig um 2,5 prósent og Framsóknarflokkur eykur lítillega við sig. Fylgi Frjálsynda flokksins eða F-lista er hins vegar óbreytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×