Innlent

Olíufélögin lækka bensínið

Breki Logason skrifar

Gunnar Karl Guðmundsson forstjóri Skeljungs segir fyrirtækið ekki ætla að elta uppi þá sem komu af stað tölvupósti þar sem fólk er hvatt til þess að sniðganga fyrirtækið. Hann segir bensínverð hér á landi hækka þegar það hækki erlendis og lækka þegar það lækki erlendis. Öll olíufélögin hafa lækkað verð hjá sér í morgun.

„Krónan styrktist mikið í gær og olíuverð hefur verið nokkuð stöðugt þannig að við munum lækka í dag. Lækkunin stafar af samspili gengis og olíu," segir Gunnar sem var nýkominn af ráðstefnu um þróun olíuverðs þegar Vísir náði af honum tali. Hann segir verðbreytinguna vera um 2 krónur af hvorri tegund fyrir sig.

Gunnar segir fyrirtækið ekki hafa fundið fyrir minni viðskiptum í gær og í morgun í kjölfar tölvupóstanna.

„Bensínverð hefur hækkað hér þegar það hækkar úti og lækkað þegar það lækkar úti, það mun gera það áfram," segir Gunnar að lokum.

Hermann Guðmundsson forstjóri N1 segir ekkert liggja fyrir um hvort fyrirtækið ætli að leita uppi upphafsmenn póstsins og bendir á að fólk sem fylgst hafi með umræðunni átti sig á því að þetta séu hlutir sem fyrirtækið ráði ekki við.

„Við ráðum hvorki genginu né olíuverðinu úti í heimi. Auk þess erum við undir stöðugri smásjá yfirvalda, FÍB og annarra hagsmunaaðila sem væru fljótir að láta í sér heyra ef þetta væri eitthvað óeðlilegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×