Innlent

Ekki stendur til að beita bráðabirgðalögum í kjaradeilu ljósmæðra

MYND/Stöð 2

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að ekki hafi komið til umræðu eða standi til að beita bráðabirgðalögum í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins. Þetta kom fram í umræðum um frestun á fundum Alþingis, en Alþingi lýkur störfum í dag og kemur aftur saman í byrjun október.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, kom í pontu í umræðunni um þingfrestunina og spurði ráðherra hvort til umræðu hefði verið að beita bráðabirgðalagaákvæði í kjaradeilu ljósmæðra á meðan hlé væri á þingi. Benti hann enn fremur á að fjármálaráðherra starfaði ekki einn í ríkisstjórn heldur á ábyrgð á beggja ríkisstjórnarflokka. Gjörningur ráðherra að stefna ljósmæðrum væri á ábyrgð beggja flokka.

Geir H. Haarde forsætisráðherra benti á að verið væri að ræða um frestun funda Alþingis og óvenjulegt væri að ræða önnur mál við það tilefni. Ekki hefði komið til tals eða stæði til að hans áliti að beita bráðabirgðalögum til að binda enda á kjaradeiluna. Það væri á ábyrgð samningsaðila að semja í málinu og ábyrgð þeirra væri mikil. Deilan væri á viðkvæmum punkti og umræður í Alþingi hjálpuðu ekki til við að leysa deiluna frekar en aðrar kjaradeilur. Hann höfðaði til samningsaðila að leysa málið undir traustri forystu sáttasemjara.

Árni Þór fagnaði yfirlýsingu ráðherra um að ekki yrði gripið til bráðabirgðalaga en benti á að málshöfðun fjármálaráðherra væri ekki til þess fallin að efla mönnum bjartsýni eða traust milli samningsaðila. Það framlag væri ekki til fyrirmyndar og vafalaust til að hleypa meiri hörku í málið.








Tengdar fréttir

Ljósmæður reiðar fjármálaráðherra

Mikil reiði kom fram á félagsfundi ljósmæðra í gærkvöldi, yfir því að Árni Mathiesen fjármálaráðherra skuli hafa stefnt Ljósmæðrafélaginu fyrir ólöglegar uppsagnir í sumar og krefjist þess að þær verði dæmdar ólögmætar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×