Innlent

Óskar Bergsson: Eini starfhæfi möguleikinn

„Sá meirihluti sem er verið að mynda er myndaður vegna gríðarlegrar spennu og ákalls úr samfélginu um breytingar í borgarstjórn," sagði Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, á aukaborgarstjórnarfundi í morgun. Hann sagði að þetta ákall hefði komið fram á vinnustöðum og heimilum í samtölum milli manna og ekki síst í fjölmiðlum.

Hann rakti helstu atriði málefnasamningsins og sagði að rannsóknir vegna Bitruvirkjunar myndu hefjast að nýju. Þá yrði fjárhagsáætlunarvinna unnin með breytingar á efnahagsumhverfinu til hliðsjónar. Að öðru leyti myndi málefnasamningurinn byggja á þeim samningi sem hefði verið gerður vorið 2006, þegar fyrrverandi oddvitar Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson mynduðu meirihluta.

Þá sagði Óskar að viðbrögð framsóknarmanna og almennings í samfélaginu sannfærðu hann um að það hafi verið rétt að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokksins. Það hafi verið eini möguleikinn á starfhæfum meirihluta.

Óskar furðaði sig á því að Ólafur F. Magnússon, sem hefur verið nefndur guðfaðir Tjarnarkvartettsins, skyldi fullyrða að hann hefði verið blekktur til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Óskar spurði á hvaða forsendu Ólafur hefði þá gengið til samstarfs í október þegar Tjarnarkvartettinn var stofnaður. Hann þyrfti að velta því fyrir sér hvort einhverjir misgóðir menn hefðu blekkt hans til samstarfsins þá.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×